Elsku besti afi minn
8.10.2008 | 20:30
Elsku afi minn er dáinn, hann var orðinn gamall kominn með heilabilun og hvíldinni feginn en mikið sakna ég hans afa míns því hann var fallegasti,sterkasti ,klárasti, flinkasti og besti afi í heimi. Afi dekraði okkur barnabörnin sín eins og hann gat hann jós kannski ekki í okkur peningum eða gjöfum en hann gaf okkur kakó þegar við áttum að fá mjólk setti aðeins meiri púðursykur út á súrmjólkina gaf okkur gráfíkjur og hunang ofan á brauð og var óspar á að kaupa nýja tegund af ávöxtum til að prufa. Hjá afa máttum við líka svona nánast allt bara ef við færum varlega og gengum frá eftir okkur, afa þótti nauðsynlegt fyrir alla drengi að eiga bílskúr ekki bara fyrir bílinn líka til að smíða og laga alla hluti en það var held ég uppáhaldsiðja afa hann var alltaf eitthvað að laga eða búa til og hann afi minn gat lagað alla hluti. Afi, blái vinnugallinn, smurning, olíublautur tvistur gamli Land- Rover og bílskúrinn, lyktin er dásamleg og það er ótrúlegt hvað við fengum að bralla í bílskúrnum hjá afa og nota verkfærin hans en af þeim átti hann nóg og af öllum stærðum og gerðum, hann sýndi okkur hvernig átti að beita þeim og svo máttum við bara prufa okkur áfram ekki var heldur leiðinlegt að heimsækja hann niður í Gefjun þar sem hann vann sem kyndari þar var heill ævintýraheimur, við barnabörnin rifumst um það hver mætti halda á nestisboxinu og hitabrúsanum þegar amma sendi okkur með matinn til hans en það var töluverð upphefð í því. Afa get ég þakkað að vera ekki hrædd við randaflugur það ver nefnilega runni í garðinum hjá ömmu og afa og þangað komu stundum randaflugur afi sagðist eiga þessar flugur og þær væru vinir hans ekki þurfti að sannfæra mig frekar afi getur ekki átt neitt vont svo randaflugur hljóta að vera góðar. Afi smíðaði hús í garðinum handa okkur krökkunum þar sem við eyddum mörgum stundum settar voru gardínur í gluggana og boðið til kaffiveislu. Bílferðirnar með afa í Land-Rover voru æði margar bæði fyrir norðan og líka voru farnar þó nokkrar ferðir milli Akureyrar og Seyðisfjarðar, þær urðu oft að miklu ævintýri amma smurði alltaf nesti fyrir ferðirnar og bakaði pönnukökur svo var stoppað á leiðinni og borðað úti í náttúrunni, stundum bilaði bíllinn eða dekkið datt undan eins og einu sinni kom fyrir á leiðinni niður í Reykjadal við horfðum á eftir varadekkinu rúlla niður brekkuna taka allar beygjur og bíða svo eftir okkur við sjoppuna sem var við gatnamótin, þessu verður sennilega aldrei gleymt. Elsku afi takk fyrir að vera sá besti í heimi
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Sæl Anna. Ég samhryggist þér og þínu fólki.
Kv frá Múlaveginum.
Jón Halldór Guðmundsson, 9.10.2008 kl. 00:56
Takk kærlega fyrir það
Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir, 9.10.2008 kl. 16:32
Sendi þér og þínum innilegar samúðarkveðjur
kveðjur frá Selfossi
Helgan, 13.10.2008 kl. 07:50
Takk fyrir það Helga mín
Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir, 13.10.2008 kl. 18:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.