Stórglæsilegt þorrablót.....
30.1.2008 | 18:36
Jæja þá er þorrablóti okkar Seyðfirðinga lokið
og mikið eru nefndarmenn glaðir, þetta er búin að vera mikil vinna en líka mikil gleði. Þegar það kom í ljós á miðvikudagskvöldi að við vorum búin að sprengja utan af okkur húsnæðið varð örlítið undarlegt andrúmsloft á æfingunni sem átti að vera því bæði vorum við í sjokki yfir því hvað ætti nú til bragðs að taka, hvað átti að gera við þá 50 sem ekki komust fyrir, ekki gátum við bara sagt við þá "nei því miður það er ekki pláss þið verðið að vera heima". Eins vorum við glöð og kát yfir þessari gríðarlegu aðsókn og mikið var um brottflutta Seyðfirðinga sem ætluðu að koma heim á blót. Óli bæjó var því kallaður á neyðarfund, það tók svosem ekki langan tíma að taka ákvörðun það var bara um eitt að ræða það þyrfti að flytja blótið yfir í íþróttahúsið. Þar með hófst gríðarleg vinna við að reisa nýtt svið taka niður leikmyndina og koma henni fyrir á nýja sviðinu með smá lagfæringum því nú vorum við komin með mikið stærra svið. Það þurfti að teppaleggja salinn fara um allan bæ og fá lánuð borð og stóla því ekki var nóg til í félagsheimilinu redda meiri mat prenta fleiri aðgöngumiða og söngbækur redda fatahengjum breyta fatahengismiðunum sem var búið að búa til, brjóta fleiri servíettur og klára að æfa skemmtiatriði já og svo þurfti auðvitað að taka niður ljósin búa til nýja ljósaslá koma slánni og ljósunum upp og finna annað og stærra hljóðkerfi. Við vorum nokkur sem fengum frí í vinnu á föstudeginum og fórum í það að raða upp borðum og stólum, dúka borðin og setja á þau diska, hnífapör, servíettur, og kerti.Hengja upp myndir inní sal og drykkjuvísur og skrípamyndir af af nefndarmeðlimum í anddyrið, græja barinn og skera niður mat í trogin sjóða rófur og kartöflur og búa til mús og stöppu. Allt gekk þetta upp með góðri samvinnu nefndarmanna og tókst blótið mjög vel við erum náttúrulega mjög montin af því að halda sögulegt blót því þetta er í fyrsta skipti sem það er haldið í íþróttahúsinu og verður þar vonandi um næstu framtíð. Þema blótsins í ár var gamli tíminn og bar yfirskriftina " Húslestur á þorra" sviðsmyndin var baðstofa og komum við með allskonar gamla muni til að skreyta með. T.d gömul skíði, skautar, rokkur, gömul hilla og bækur sauðskinnsskór ég saumaði skotthúfur á alla og við vorum í svörtum bolum, karlarnir með gyltum hnöppum en við konurnar með brjóstskrautið af upphlut. Við fengum mikið hrós fyrir fallegan sal og skemmtilegt blót, við gerðum grín að hinum ýmsu uppákomum í bænum á liðnu ári en held að við höfum ekki sært neinn með enda var það ekki ætlunin. hljómsveitinn Austurland spilaði svo fyrir dansi við mikla ánægju allavega var gólfið fullt allan tímann og þar dönsuðu bæði ungir og aldnir sérstaklega var gaman að sjá unga pilta dansa við ömmur sínar á áttræðisaldri
.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Gaman að heyra hvað tókst vel til. Ég er einmitt að fara á þorrablót hér í sveit 9. feb og hlakka þvílíkt til.
Hafdís Jóhannsdóttir, 31.1.2008 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.